Línurnar eru farnar að skýrast í því hverjir koma til með að leiða MP banka næstu misserin eftir að hópur fjárfesta, sem Skúli Mogensen leiðir, eignaðist bankann í apríl. Fyrsta verkefnið var að skipa nýja stjórn. Sigurður Atli Jónsson tók við forstjórastólnum 1. júlí og meðstofnandi hans að Alfa verðbréfum, sem MP banki keypti samhliða ráðningu Sigurðar, Brynjólfur J. Baldursson, er framkvæmdastjóri Alfa verðbréfa og tekur sæti í framkvæmdastjórn bankans. Benedikt Gíslason var svo ráðinn til bankans frá Straumi í júní en hann er framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs. Unnið er að ráðningu framkvæmdastjóra eignastýringar og yfirlögfræðings og ætti að skýrast á næstu vikum hverjir verða fyrir valinu en nokkrar vikur eru síðan þessi störf voru auglýst.

Nýr forstjóri með víðtæka reynslu

Sigurður Atli hefur víðtæka reynslu úr fjármálageiranum. Hann stofnaði ALFA verðbréf árið 2004 með Brynjólfi en þar áður var hann forstjóri Landsbréfa hf. og framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbanka Íslands hf. Sigurður Atli hefur einnig setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja, s.s. Kauphallar Íslands, Verðbréfaskráningar Íslands, Heritable Bank í Bretlandi, Líftryggingafélags Íslands, Atorku, Icelandair Group, Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja og Landsvaka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Meðal annars efnis í blaði morgundagsins er:

  • Ársreikningaskil sveitarfélaga
  • Þróun ávöxtunarkröfu á dollaraskuldabréf ríkissjóðs
  • Sala Byr til Íslandsbanka
  • Skuldsetning hjá VBS til sérstaks saksóknara
  • Tillaga OECD um breytingar á lánveitingum lífeyrissjóða byggð á misskilningi
  • Hneyksli fjölmiðlaveldis Ruperts Murdochs
  • Rýnt í skýrslu Bankasýslu ríkisins
  • Viðtal við Sigurð Erlingsson, framkvæmdarstjóra Íbúðalánasjóðs