Þeir Leifur Guðmundsson og Grímur Gíslason hafa verið ráðnir sem stjórnendur hjá Flugfélagi Íslands. Leifur er nýr forstöðumaður tæknisviðs Flugfélags Íslands og Grímur nýr forstöðumaður sölu- og markaðssviðs Flugfélags Íslands. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Var áður flotastjóri í Litháen

Leifur Guðmundsson Flugfélag Íslands
Leifur Guðmundsson Flugfélag Íslands
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Leifur hefur verið flotastjóri Avion Express í Litháen frá 2014 en var þar áður hjá Smart Lynx í Lettlandi og Eistlandi frá 2009 og gegndi þar m.a. stöðu tæknistjóra. Leifur vann á árunum 1998-2009 á tæknisviði Flugfélags Íslands í ýmsum störfum m.a. sem innkaupastjóri og sem yfirmaður skipulagsdeildar.

Leifur lauk námi í flugvirkjun árið 1998 við Embry Riddle háskólann í Florida í Bandaríkjunum. Hann er giftur og á þrjú börn.

Frá Icelandair til Flugfélags Íslands

Grímur Gíslason Flugfélag Íslands
Grímur Gíslason Flugfélag Íslands
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Grímur hefur undanfarið gengt stöðu sölustjóra Icelandair á Íslandi en á árunum 2015-2017 var hann hjá Icelandair í Evrópu, fyrst sem markaðsstjóri fyrir Mið-Evrópu og síðan sem sölustjóri fyrir Þýskaland, Sviss og Austurríki. Grímur var á árunum 2012-2015 vörumerkjastjóri Icelandair.

Grímur lauk BS gráðu í viðskiptum og markaðsfræðum frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011. Hann er giftur og á eitt barn.