Sameinaður skóli Fjöltækniskóla Íslands og Iðnskólans í Reykjavík, Tækniskólinn, skóli atvinnulífsins verður settur í fyrsta sinn 20. ágúst.

Nýir stjórnendur skólans eru:

Skólameistari: Baldur Gíslason, áður skólameistari Iðnskólans í Reykjavík.

Skólameistari: Jón B. Stefánsson, áður skólameistari Fjöltækniskólans.

Rekstrar- og fjármálastjóri: Björg Jónsdóttir. Björg starfaði áður sem fjármálastjóri Mest og Steypustöðvarinnar.

Námsstjóri: Guðmundundur Páll Ásgeirsson. Guðmundur starfaði áður sem námsstjóri hjá Iðnskólanum í Reykjavík.

Samskiptastjóri: Aðalheiður Sigursveinsdóttir. Aðalheiður starfaði áður sem aðstoðarmaður utanríkisráðherra.

Áfangastjóri: Halldór Hauksson. Halldór starfaði áður við áfangastýringu hjá Iðnskólanum í Reykjavík.

Þróunarstjóri: Sigríður Ágústsdóttir. Sigríður starfaði áður sem sviðstjóri starfs- og endurmenntunar hjá Fjöltækniskólanum.

Skólastjórar nýrra undirskóla:

Hársnyrtiskólinn: Ragnheiður Bjarnadóttir

Véltækniskólinn: Vilbergur Magni Óskarsson

Raftækniskólinn: Valdemar Gísli Valdemarsson

Um 3000 nemendur í nýjum skóla

Í tilkynningu frá skólanum kemur fram að Tækniskólinn er stærsti framhaldsskóli landsins, en nemendur í dagskóla verða tæplega tvöþúsund, að meðtöldum nemendum í kvöldskóla, fjarnámi og endurmenntun á háskólastigi verða nemendur um eða yfir þrjúþúsund talsins.

Tækniskólinn er einkarekinn skóli og er rekstrarfélagið í eigu aðila atvinnulífsins, Landssambands íslenskra útvegsmanna, Samtaka iðnaðarins, Samorku, Samtaka íslenskra kaupskipaútgerða og Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík.

„Tækniskólinn verður rekinn með nýrri hugmyndafræði en verið hefur í skólarekstri hérlendis m.a með því að stofnaðir hafa verið 11 undirskólar sem hver fyrir sig hefur sérstakan skólastjóra og faglegt sjálfstæði,“ segir í tilkynningu frá skólanum.

„Við skólana starfa sérstök fagráð þar sem saman koma fulltrúar atvinnurekenda, launþega og fagkennara í hverri grein sem eflir tengsl skóla við atvinnulífið.“

Þá kemur einnig fram að Tækniskólinn tekur sérstakt mið af nýjum framhaldsskólalögum í þróun skólans og stefnir að því að aðlaga nám í skólanum að þeim möguleikum sem ný lög bjóða.