Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur útnefnt Haruhiko Kuroda, bankastjóra Asíska þróunarbankans, sem næsta seðlabankastjóra Japans. Bloomberg-fréttaveitan segir Kuroda ekki eina nýja manninn við stýrið í japanska seðlabankanum enda búist við að tveir undirmenn hans verði ráðnir, þar á meðal aðstoðarseðlabankastjóri.

Bloomberg segir þá sem forsætisráðherrann hafi tilnefnt auka líkurnar á að japanski seðlabankinn haldi áfram að dæla fjármagni inn í efnahagslífið til að koma því á lappirnar eftir áratuga hnignun. Bent er á að þeir sem Abe hefur tilnefnt hafi talað fyrir aðgerðum til að slá á verðhjöðnun í landinu síðan kreppa skall þar á í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar og hefur hagkerfið aldrei náð sér eftir það.

Kuroda, sem Abe hefur tilnefnt sem seðlabankastjóra, talaði m.a. fyrir upptöku verðbólgumarkmiða fyrir rúmum áratug. Bankinn innleiddi markmiðin hins vegar ekki fyrr en um síðustu áramót.