Þriðja myndin í seríunni um Captain America, Captain America: Civi War verður tekin upp að hluta til á Íslandi. Þessu greinir comingsoon.net frá.

Kvikmyndaframleiðandinn Marvel Studios hefur þegar hafið tökur á myndinni í Pinewood Studios í Atlanta í Georgíufylki, þar sem meirihluti myndarinnar verður framleiddur en svo mun kvikmyndataka einnig fara fram í Þýskalandi, Púertó Ríkó og á Íslandi.

Myndin er væntanleg í kvikmyndahús í Bandaríkjunum 6. maí á næsta ári. Leikstjórar myndarinnar eru Anthony og Joe Russo sem einnig leikstýrðu annarri myndinni í seríunni. Meðal leikara eru Chris Evans sem Captain America, Robert Downey Jr sem Tony Stark/Iron Man, Scarlett Johansson sem Natasha Romanoff/Black Widow, Paul Bettany sem The Vision, Jeremy Renner sem Clint Barton/Hawkeye og Elizabeth Olsen sem Wanda Maximoff/Scarlet Witch. Því er óhætt að segja að stórstjörnur verði á landinu þegar tökur fara fram.

Enn er óljóst hvenær tökur munu fara framm á Íslandi.