Farþegaskipið Víkingur, sem siglir milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja, fékk 8,1 milljón króna frá ríkinu í febrúar. Þetta kemur fram í svari Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns Vinstri grænna.

Hanna Birna segir að Vegagerðin hafi undirritað samning við Viking Tours í janúar og það hafi verið gert í samkomulagi við Eimskip, sem hafi einkarétt á flutningum milli lands og Eyja. Í svari ráðherra kemur fram að kostnaður við samninginn sé 5 milljónir króna fyrir fastan kostnað auk 100 þúsund króna fyrir hverja ferð sem farin er, en skipið siglir tvær ferðir á dag ef veður leyfir.

„Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni nam kostnaður í febrúar samtals 8,1 milljón króna,“ segir í svarinu.