„Sé það rétt, sem fram kemur í Morgunblaðinu í dag að Bretar og Hollendingar vilji 2,75% álag á breytilegu vextina eru þeir í raun að bjóða verri kjör en felst í að greiða 5,5% fasta vexti. Fimmtán ára vextir eru núna 4,35% á vaxtaskiptamarkaði í Bretlandi sem þýðir að Bretar og Hollendingar eru jafnvel settir hvort við greiðum þá vexti auk 1,25% álag eða fasta 5,5% vexti. Hærra álag en 1,25% þýðir í raun verri kjör," segir Agnar Tómas Möller sérfræðingur hjá GAM Management.

Agnar segir mjög auðvelt að sýna fram á að hagstæðar sé að greiða fljótandi en fasta vexti af Icesave-láninu. Væntingar markaðarins um framtíðar skammtímavexti séu hækkandi, sem sjáist á þróun framvirkra vaxta á markaði, en á sama tíma mun höfuðstóllinn lækka þar sem stefnt sé að því að greiða hratt niður lánið með eignum Landsbankans.

„Í því tilfelli þar sem væri greitt hratt inn á höfuðstólinn þyrftu skammtímavexti að hækka langt umfram væntingar á markaði, og í ljósi þess að slík hröð hækkun á skammtímavöxtum í Bretlandi myndi vera afleiðing af mikilli verðbólgu og þar af leiðandi rýrnandi pundi, er í raun mjög ólíklegt að það sé ekki hagstæðara að greiða fljótandi vexti, sé greitt tiltölulega hratt inn á höfuðstólinn," segir Agnar.