Að gefnu tilefni vill Nýi Kaupþing banki árétta að engar skuldir hafa verið afskrifaðar hjá eignarhaldsfélaginu 1998 ehf., móðurfélagi Haga.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýja Kaupþingi en mikil umræða hefur verið um skuldastöðu 1998 gagnvart Nýja Kaupþingi síðustu daga. Þá segir bankinn að 1998 njóti engrar sérmeðferðar við úrlausn sinna mála og engin ákvörðun hafi verið tekin um framtíðareignarhald félagsins.

„Upplýsingar sem hafa birst í fjölmiðlum undanfarið um uppgjör og afskriftir skulda 1998 ehf. við bankann eru úr lausu lofti gripnar,“ segir í tilkynningu bankans.

„Við lausn á skuldavanda viðskiptavina ber bankanum að hafa viðskiptaleg sjónarmið að leiðarljósi og gæta jafnræðis. Mál 1998 ehf. er skoðað út frá þeim almennu sjónarmiðum sem gilda um úrlausn á skuldavanda fyrirtækja og endurspeglast í verklagsreglum bankans [...] Í þeim er m.a. gert ráð fyrir ýmsum lausnum á skuldavanda.“

Þá segir bankinn að eins og í öðrum sambærilegum málum sé m.a. kannað hvort eigendur 1998 ehf. geti komið með eða haft milligöngu um nýtt fjármagn inn í rekstur félagsins. Hins vegar hafi engin ákvörðun verið tekin um áframhaldandi aðkomu núverandi eigenda.