Í framhaldi af því að innstæður viðskiptavina SPRON voru færðar til Nýja Kaupþings banka þá hófu skilanefnd SPRON og Nýi Kaupþing banki viðræður um að þjónusta vegna útlána SPRON færðist yfir til Nýja Kaupþings banka.

Þjónustusamningur þar að lútandi var undirritaður af skilanefnd SPRON og Nýja Kaupþing banka þann 25. mars sl.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skilanefnd SPRON en í henni svarar skilanefndin fréttatilkynningu Nýja Kaupþings banka frá því í gær þess efnis að skilanefnd SPRON beri ábyrgð á hnökrum á útlánaþjónustu gagnvart viðskiptavinum SPRON.

Í tilkynningu skilanefndar SPRON kemur fram að föstudaginn 27. mars sl. upplýstu stjórnendur Nýja Kaupþings banka skilanefnd SPRON um að þeir sæju tormerki á því að sinna útlánaþjónustu í samræmi við gildandi samning. Þá hafi stjórnendur Nýja Kaupþings krafist aðgangs að upplýsingum um viðskiptasögu viðskiptamanna SPRON.

„Upplýsingar þessar eru yfirgripsmiklar og hafa orðið til innan SPRON mörg undanfarin ár,“ segir í tilkynningu skilanefndarinnar og tekið er fram að í undirrituðum þjónustusamningi milli aðila hafi engin ákvæði verið um afhendingu á ofangreindum upplýsingum.

Þá kemur fram að skilanefnd SPRON taldi sér ekki heimilt að afhenda umbeðnar upplýsingar án samþykkis  Fjármálaeftirlits og sendi erindi um málið til FME.

„Nýi Kaupþing banki krafðist umræddra upplýsinga án tafar og taldi sér ekki fært að þjónusta útlán SPRON án þeirra.   Nýi Kaupþing banki lagði til að gildandi samningur félli niður að öðrum kosti og að SPRON tæki þjónustu útlána viðskiptamanna SPRON aftur í sínar hendur,“ segir í tilkynningunni en fram kemur að skilanefnd SPRON féllst á tillögu Nýja Kaupþings banka.

„Skilanefnd SPRON harmar að Nýi Kaupþing banki skuli freista þess að gera vinnubrögð skilanefndar SPRON tortryggileg í fjölmiðlum.  Skilanefnd SPRON mun hér eftir sem hingað til viðhafa fagleg vinnubrögð og heilindi í samstarfi við aðra aðila,“ segir í tilkynningunni.

„Skilanefnd SPRON mun af fremsta megni beita sér fyrir því að viðskiptamenn SPRON verði ekki fyrir óþægindum vegna máls þessa.“