Nýi Kaupþing banki hefur kært forsvarsmenn Exista til sérstaks saksóknara vegna sölu á hlut Exista í Bakkavör Group þann 11. september 2009. Það er mat Nýja Kaupþings að forsvarsmenn Exista hafi fyrir hönd félagsins brotið gegn ákvæðum 250. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með sölunni. Nýja Kaupþing mun jafnframt leita viðeigandi einkaréttarlegra úrræða samhliða kærunni til saksóknara segir í tilkynningu.

Þá hefur Nýja Kaupþing kært til sérstaks saksóknara forsvarsmenn Exista og þá starfsmenn Deloitte og Logos lögmannsþjónustu sem önnuðust tilkynningu til hlutafjárskrár vegna hlutafjáraukningar Exista í desember 2008. Að mati bankans fer háttsemi viðkomandi aðila gegn 153. og 154. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995.