Nýja Kaupþing og Íslandsbanki verða endurfjármagnaðir á hluthafafundi sem stefnt er að  því að halda síðar í dag. Fjárframlag ríkissjóðs til Nýja Kaupþings verður 72 milljarðar en 65 milljarðar til Íslandsbanka.

Endurfjármögnun Landsbankans tefst hins vegar um að minnsta kosti nokkrar vikur eins og fram kom á vef Viðskiptablaðsins á þriðjudag. Sótt verður um frestunina til Fjármálaeftirlitsins seinna í dag.

Ráðgert er að erlendir kröfuhafar eignist Íslandsbanka að fullu og enn fremur að erlendir kröfuhafar eignist tæplega níutíu prósent í Nýja Kaupþingi. Áfram er miðað við að ríkið eignist Nýja Landsbankann að fullu.

Gengið er út frá því að ríkissjóður leggi Nýja Landsbankanum um 140 milljarða króna.

Miðað er við að erlendu kröfuhafarnir taki yfir nýju bankana síðar á árinu.

Fram kom í viðtali við Gunnar Þ Andersen, forstjóra FME, í Viðskiptablaðinu í vikunni, að eftirlitið væri enn að móta „strúktúrinn" á eignarhaldinu, þegar erlendu kröfuhafarnir koma að nýju bönkunum. Það verði þó ekki þannig að skilanefndir gömlu bankanna reki nýju bankana heldur verður valin sérstök stjórn á hluthafafundi. Tilteknar kröfur verði gerðar til stjórnarmanna til dæmis um að þeir hafi góðan skilning á fjármálaheiminum.