Stjórn Nýja Kaupþings banka samþykkti á fundi í morgun að stofna fjárfestingarfélag og fasteignarfélag til að halda utan um eignarhald Kaupþings á þeim eignum sem bankinn kann að eignast á næstu mánuðum vegna erfiðleika í rekstri stærri fyrirtækja sem eru í viðskiptum við bankann.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Þar er stofnun félaganna sögð vera í samræmi við tilmæli ríkisstjórnarinnar til bankanna um stofnun sérstakra eignaumsýslufélaga sem hafi umsjón með eignarhlutum í stærri fyrirtækjum.