Sérfræðingar telja litlar sem engar líkur á því að seðlabankastjórn Nýja-Sjálands ákveði að lækka stýrivexti á vaxtaákvörðunarfundi sínum á morgun. Sömu sérfræðingar hafa seinkað spá sinni um þann tímapunkt sem seðlabankinn byrjar að lækka vexti og segja helmingslíkur á að lækkunarhrina hefjist í september. Nýja-Sjáland telst til hinna svokölluðu vaxtarhagkerfa, líkt og Ísland, og eru stýrivextir þar 7,25% -- næsthæstir í OECD á eftir vöxtunum á Íslandi. Lækkun íslensku krónunnar hefur haft áhrif þar í landi, en fjárfestar hafa tekið lán þar sem vextir hafa verið lægri til að kaupa íslensk og nýsjálensk skuldabréf og innleysa vaxtamuninn.

Aðalhagfræðingur ANZ National Bank, Cameron Bagrie, segir að hækkandi verðbólga, frekar en minnkandi hagvöxtur, sé mesta hættan sem steðji að nýsjálensku efnahagslífi um þessar mundir. Nýsjálenski dollarinn hefur lækkað í verði að undanförnu og opinberar tölur gefa til kynna að hagvöxtur á fjórða ársfjórðungi 2005 hafi verið neikvæður um 0,1%.

Bagrie segir að fyrirtæki eigi undir högg að sækja og að viðbrögð við því verði líklega frekar uppsagnir og minni fjárfesting en að þau fleyti því út í verðlagið með tilheyrandi verðbólgu. Hækkandi eldsneytisverð muni valda því að heimilin dragi úr neyslu og lántökum. Þetta hækkaða bensínverð muni þó ýta verðbólgu í júní yfir 1%, sem þýði 3,6% verðbólgu á ársgrundvelli.

"Þótt eldsneytisverð sé þáttur sem seðlabankinn á strangt til tekið að horfa framhjá, getur hann ekki hunsað hættuna á því að hækkun þess leiði til varanlegrar verðbólgu," segir Bagrie. Hann segir að takmark seðlabankans sé að halda verðbólguvæntingum niðri og að hann muni ekki láta bilbug á sér finna.

Í mars sagði Alan Bollard, seðlabankastjóri, að hann byggist ekki við að hægt yrði að lækka vexti á þesu ári. "Ótímabær slökun myndi krefjast þess að verðbólguþrýstingur minnkaði mun meira en við búumst við eins og stendur," sagði hann.