Dómstóll á Nýja Sjálandi hefur úrskurðað að tæknifrumkvöðullinn Kim Dotcom megi samkvæmt lögum vera framseldur til Bandaríkjanna þar sem hann á von á fjölda ákæra. Dotcom er ásakaður fyrir ótal höfundarréttarlagabrot, skipulagða glæpastarfsemi og peningaþvætti, en hann ætlar að áfrýja úrskurðinum.

Dotcom stofnaði deilingarsíðuna Megaupload sem naut gríðarlegra vinsælda á árum áður. Milljónir manna notuðu síðuna til að niðurhala kvikmyndum og tónlist og fullyrða bandarísk yfirvöld að Dotcom og fleiri hafi kostað kvikmyndaver og útgáfufyrirtæki yfir 500 milljónir dollara.

Sjálfur segir Dotcom, þýskur milljarðamæringur sem lifað hefur í vellystingum í borginni Auckland, sem titlar sig sem „frelsishetju á veraldarvefnum“, að hann hafi ekki verið ábyrgur fyrir höfundarréttarbrotum. Ætlar hann að berjast fyrir rétti sínum.

Árið 2005 stofnaði Dotcom vefsíðuna Megaupload í Hong Kong og árið 2010 fékk hann landvistarleyfi í Nýja Sjálandi. Hefur hann búið í Auckland síðan þá, en árið 2012 lokuðu bandarísk yfirvöld vefsíðunni Megaupload.com og birtu Dotcom áðurnefndar ákærur.

Ný-sjálensk lögregluyfirvöld gerðu húsleit á heimili hans að beiðni bandarísku alríkislögreglunnar FBI sama ár og í kjölfarið fóru bandarísk yfirvöld að vinna í að fá hann framseldan.