Þó nokkrar þjóðir íhuga nú að koma á fót svokölluðum borgaralaunum, þar sem hver og einn ríkisborgari fær mánaðarleg laun frá ríkinu óháð atvinnu og stöðu í þjóðfélaginu. Meðal annars hafa Finnar , Hollendingar og Kanadabúar velt þeim fyrir sér, og Svisslendingar hafa íhugað að gera tilraunir í ákveðnum sveitarfélögum sínum.

Nú bætist Nýja-Sjáland í hópinn. Andrew Little, formaður verkamannaflokksins þarlendis, lýsti því yfir að ríkið íhugaði leiðir til að koma á laggirnar einhverri útgáfu af borgaralaunakerfinu. Aðferðin kemur til greina vegna þess að vinnumarkaður Nýja-Sjálands hefur orðið lausari og opnari, og fólk skiptir oftar um vinnu.

Það hefur í för með sér aukið skrifræðisálag og pappírsvinnu að setja fólk af og á atvinnuleysisbætur, sem kostar ríkið talsvert fé á ári hverju. Ef borgaralaunin yrðu tekin upp myndi sá umsýslukostnaður hverfa, þótt útgjöld ríkisins myndu að sama skapi stóraukast. Markmiðið væri þá einföldun á kerfinu.

Rannsóknir hafa bent til þess að undir borgaralaunakerfinu sé fólk líklegra til að vinna lengur og skapa meiri verðmæti, svo hugmyndin kann að hafa eitthvað til síns máls. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um áður er hugmyndin langt frá því að vera ný af nálinni, en það er helst nú sem umræðan hefur sprottið upp aftur um borgaralaun.