Gísli Hjálmtýsson framkvæmdastjóri Thule Investments og forseti tölvunarfræðideildar HR segir að leggja þurfi nýjan fjarskiptasæstreng til landsins á um 7 ára fresti miðað við kröfur tækniþróunarinnar.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu en Gísli hefur leitt verkefni um lagningu nýs sæstrengs milli Íslands, Írlands og Noregs. Segir hann nettengingar samkeppnislanda okkar sem leiða þróun gagnaversiðnaðarins áreiðanlegri, hraðari og ódýrari en hér á landi.

„Það er því erfitt að laða að stór gagnaver sem treysta á áreiðanlegt samband og öflugar nettengingar,“ segir Gísli. „Af þeim sökum eru hér á landi einkum gagnaver með mikilli reiknigetu, eins og bitcoinnámur, sem þarfnast ekki mikils áreiðanleika og bandvíddar.“

Segir hann nýjan sæstreng kosta um 6 til 7 milljarða króna og finnst honum eðlilegt að ríkið fjármagni strenginn. Þó hefur KPMG sagt í nýlegri úttekt á gagnaversiðnaðinum að mögulegir viðskiptavinir gagnavera hér á landi litu það neikvæðum augum að einungis eitt fyrirtæki, Farice sem er að meirihluta í eigu ríkisins, bjóði nettengingar við umheiminn.