Stjórnvöld í Danmörku hafa kynnt nýjar björgunaraðgerðir fyrir banka þar í landi. Upphæð björgunarpakkans verður allt að 100 milljarðar danskra króna og ríkið vill 10% ávöxtun af fjármagninu, að því er segir í Børsen.

Auk kröfu um 10% ávöxtun er gerð krafa um að stjórnendur banka fái ekki kauprétti að hlutabréfum, en það skilyrði var einnig í fyrri bankapakka. Þá má aðeins helmingur af launum stjórnenda banka vera breytilegur, t.d. með árangurstengingu.

Viðskipta- og efnahagsráðherra, Lene Espersen, sagði við kynningu á aðgerðunum að bankageirinn hefði verið of áhættusækinn. Það hefði leitt til þess að meira hefði verið hugsað um að græða en að gera það sem hefði verið gott fyrir samfélagið.