Helstu hlutabréfavísitölur á Wall Street lækkuðu lítillega þegar markaðir opnuðu í gærmorgun eftir birtingu hagtalna sem gáfu til kynna að bandaríska hagkerfið væri á hraðri leið inn í samdrátt.

Hið sama var uppi á teningnum á hlutabréfamörkuðum í Asíu og Evrópu: Nikkei 225-vísitalan lækkaði mest, eða um 4,5%, á meðan helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu féllu um ríflega eitt prósent.

Bandaríkjadalur náði jafnframt sínu lægsta gildi gagnvart evrunni eftir að fjárfestirinn Warren Buffet sagði að bandaríska hagkerfið væri nú þegar komið inn í samdráttarskeið. Buffet tilkynnti einnig að fyrirtæki hans, Berkshire Hathaway, hygðist draga til baka tilboð sitt um að taka yfir tryggingar á skuldabréfum sveitarfélaga að verðmæti 800 milljarða Bandaríkjadala.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .