Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir að nýjar höfuðstöðvar gætu risið á þremur árum.

„Landsbankinn býr að því að vera í mjög óhentugu húsnæði, mörgum litlum húsum í miðbænum og víðar. Það heftir samskipti starfsfólks og flæðið innanhúss. Það liggja hundruð fermetra ónýttir í göngum og stigahúsum. Meirihluti húsnæðisins er leiguhúsnæði. Eigendurnir eru sumir sífellt að skoða hvort þeir eigi frekar að reka hótel. Þessu fylgir rekstraráhætta fyrir okkur. Að auki hentar húsnæðið illa fyrir banka, til dæmis varðandi aðkomu almennra viðskiptavina og aðgengi fatlaðra. Okkur ber skylda til að reka bankann vel og við teljum ávinninginn af því að komast í hagkvæmara húsnæði mikinn. Við stefnum að því að klára val á lóð fyrir mitt þetta ár,“ segir Steinþór um nýjar höfuðstöðvar.

Hann segir að þær gætu risið á þremur til þremur og hálfu ári, ef allt gengur að óskum. Byggingin yrði hógvær og hönnuð miðað við þarfir bankans eins og menn sjá þær núna en ekki þær þarfir sem skilgreindar voru fyrir gamla bankann á árunum fyrir hrun.