Landsbankinn hefur tekið ákvörðun um að ráðast í nýbyggingu við Austurhöfn í Reykjavík. Byggingin mun hýsa alla miðlæga starfsemi bankans og gera áætlanir hans ráð fyrir að rekstrarkostnaður vegna húsnæðis lækki um 700 milljónir króna og að fjárfestingin borgi sig á um tíu árum. Kemur þetta fram í fréttatilkynningu frá bankanum.

Í tilkynningunni segir að kostnaður við byggingu nýs húss með lóðarkaupum sé áætlaður um átta milljarðar króna. Þá er jafnframt áætlað að fjárfestingin borgi sig upp á um tíu árum frá því að húsið er tekinn í notkun en við flutning starfseminnar mun bankinn einnig selja fasteignir fyrir vel yfir einn milljarð króna.

Í ágúst mun síðan bankinn kynna samkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands um hönnun nýbyggingarinnnar.Hönnunarsamkeppnin verður opin og fer fram í tveimur þrepum. Gögn verða aðgengileg mánudaginn 17. ágúst. Áætlað er að niðurstöður úr samkeppninni liggi fyrir í febrúar 2016. Jafnframt hefur verið opnuð sérstök hugmyndagátt um nýtingu núverandi höfuðstöðva Landsbankans við Austurstræti 11. Hún verður opin til þriðjudagsins 25. ágúst.