Glitnir banki hf. hefur ákveðið að efna til tveggja þrepa samkeppni um deiliskipulag á lóðunum Borgartúni 41 og Kirkjusandi 2, Reykjavík og um tillögu að nýjum höfuðstöðvum Glitnis á reitnum sem fengið hefur heitið Kirkjusandsreiturinn eins og kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag.

Þátttaka er öllum heimil og verða 4-6 tillögur valdar úr fyrra þrepi samkeppninnar til frekari úrvinnslu í síðari hluta samkeppninnar. Er gert ráð fyrir að í byrjun næsta árs verði komin niðurstaða úr seinna þrepinu og gert ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist á miðju ári 2007.

Að sögn Finns Reyrs Stefánssonar, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs hjá Glitni, þá er gert ráð fyrir að húsið komist í notkun seint árið 2008 en ákveðið var að efna til alþjóðlegrar samkeppni í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Gert er ráð fyrir að nýtt hús verði um 14.000 fermetrar með vinnurými fyrir 700 starfsmenn. Núverandi höfuðstöðvar eru tæplega 8.000 fermetrar og eru þær í eigu eignarhaldsfélagsins Fasteignar sem er að hluta í eigu Glitnis.