Samkvæmt fréttatilkynningu frá Samskipum þá munu skrifstofur Samskipa í Rotterdam og dótturfyrirtækisins Geest North Sea Line sameinast undir einu þaki í byrjun næsta árs þegar félögin flytja í nýja skrifstofubyggingu sem nú er verið að reisa á gamla hafnarsvæðinu í Rotterdam.

Höfuðstöðvar erlendrar starfsemi Samskipa verða í nýju byggingunni og mun flutningurinn þangað auðvelda öll samskipti og hjálpa til við að sameina bæði starfsfólk og menningu þeirra erlendu fyrirtækja sem sameinuð hafa verið rekstri Samskipa á undanförnum misserum.

?Í fyrsta sinn eftir kaup okkar á flutningafyrirtækjunum Geest, Seawheel, Kloosterboer og Van Diern Maritime verða allir meginþættir erlendrar starfsemi Samskipa sameinaðir aftur á einum stað,? segir Michael F. Hassing, annar forstjóra Samskipa í tilkynningu félagsins. ?Þetta fyrirkomulag mun leiða til mikillar hagræðingar í rekstri, samtímis því sem þjónustan við viðskiptavini okkar verður enn markvissari, alveg eins og átti sér stað þegar við fluttum í nýjar höfðustöðvar á Íslandi í byrjun síðasta árs.?

Höfuðstöðvar Samskipa í Rotterdam eru hluti af svokölluðu ?DockWorks? verkefni við Waalhaven O.Z, sem hafnaryfirvöld í Rotterdam og eitt stærsta verktakafyrirtæki Hollands, OVG, standa að. Byggingaframkvæmdir eru þegar hafnar og eru verklok áætluð í lok þessa árs. Samskip leigja eina af þeim fjórum byggingum sem rísa þarna og eru innblásnar af gámaflutningaskipunum sem losa og lesa í Waalhaven. Hönnun húsanna annast hollenska arkitektafyrirtækið Zwarts & Jansma en samræming hönnunar, frágangs, fyrirkomulags og flutninganna í nýja skrifstofuhúsnæðið er í höndum sérstakrar verkefnisstjórnar.