Nýbyggðar íbúðir sjást ekki mikið í sölutölum enn sem komið er. Samkvæmt þinglýsingargögnum voru einungis seldar 515 eins og tveggja ára íbúðir á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2016 og 532 á árinu 2015. Það sem af er þessu ári hafa einungis verið seldar um 250 nýjar íbúðir. Ef litið er á samskonar tölur frá stærstu bæjum á höfuðborgarsvæðnu fyrir tíu árum síðan, sést að mun meira var selt af nýjum íbúðum á því ári.

Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans en þar segir að miðað við mikla verðhækkun á markaðnum ættu nýjar íbúðir að seljast hratt og engar vísbendingar eru uppi um að erfitt sé að selja nýbyggðar íbúðir. Að mati greiningaraðila ættu opinberar tölur um fjölda þinglýstra kaupsamninga að gefa góða mynd af núverandi þróun.

Fáar nýjar íbúðir

Sérfræðingar hjá Landsbankanum bent á að það hafi einkennt umhverfi byggingarstarfseminnar að opinberar tölur um hversu mikið var verið að byggja hafi verið af skornum skammti og hafi þetta sér í lagi átt við árin fyrir hrun. „Á þeim árum gerði Landsbankinn tilraun til þess að fylgjast með hvað var að gerast með beinum talningum og síðustu ár hafa Samtök iðnaðarins haldið samskonar talningum áfram. Opinberar tölur, t.d. frá sveitarfélögum, hafa hins vegar verið mikið á reiki,“ segir í greiningunni.

Bent er á að almennt er talið að það þurfi 1.800 til 2.000 nýjar íbúðir inn á markaðinn til að mæta uppsafnaðri þörf. Þegar greiningaraðilar líta til fjölda eins og veggja ára gamalla íbúða sem seldar eru á höfuðborgarsvæðinu eru þær að þeirra mati ótrúlega fáar.

„Samkvæmt þinglýsingargögnum voru einungis seldar 515 eins og tveggja ára íbúðir á árinu 2016 og 532 á árinu 2015. Það sem af er árinu hafa einungis verið seldar um 250 nýjar íbúðir. Sé litið á samskonar tölur frá stærstu bæjunum á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2007 sést að mun meira var selt af nýjum íbúðum á því ári,“ segir í greiningunni.

Misjafnt eftir bæjarfélögum

Hlutfall nýrra íbúða er þó mjög misjafnt á milli sveitarfélaga. Í Garðabæ var til að mynda um það bil 40% af sölu íbúða, nýjar íbúðir árið 2016 og það sama á við um það sem af er 2017. Hlutfallið fyrir Reykjavík er hins vegar innan 5%, þrátt fyrir gegndarlausar kynningar á byggingaráformum borgarinnar.