Fyrrverandi forstjóri rússneska olíurisands Yokos, á nú yfir höfði sér nýjar ákærur rússneskra yfirvalda en Khodorkovsky afplánar nú átta ára dóm í Rússlandi fyrir skattsvik, fjárdrátt og bókhaldsmisferli.

Fréttavefur BBC greinir frá því í dag Khodorkovsky kunni nú að verða ákærður fyrir að hafa falsað gögn um olíubirgðir auk þess að hafa stundað peningaþvott.

Lögfræðingar Khodorkovsky segja ákærurnar „fáránlegar“ og enn einn liður í ofsóknum stjórnvalda á hendur honum.

Því hefur verið haldið fram að ákærur á hendur Khodorkovsky séu pólitísks eðlis en stjórnvöld í Kremlin hafa alltaf neitað slíkum ásökunum.

Þessar fréttir gefa þó til kynna að Khodorkovsky verði ekki náðaður en rétt áður en Vladimir Putin lét af forsetaembætti á þessu ári gaf hann til kynna í rússneskum fjölmiðlum að eftirmaður hans, Dmitry Medvedev kynni að náða Khodorkovsky.

Að sögn BBC hafa lögfræðingar Khodorkovsky gefið til kynna að hann myndi ekki þiggja náðun forsetans yrði hún á annað borð veitt því þar með væri hann að viðurkenna brot sín en Khodorkovsky hefur ávalt lýst sig saklausan af öllum þeim kærum sem hann hefur þurft að sæta.

Olíufélagið Yokos var lýst gjaldþrota árið 2006.