Í viðtali við Þór Sigfússon, framkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands, sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag, kemur fram að nefnd um stjórnarhætti fyrirtækja er að hefja störf að nýju og ætlunin er að birta nýjar leiðbeiningar fyrir árslok. "Ekki eru fyrirsjáanlegar miklar breytingar á leiðbeiningunum. Við viljum halda þeim hnitmiðuðum. Á erlendum vettvangi er mikið rætt um óháða stjórnarmenn og bent á að þetta ákvæði í leiðbeiningum í öðrum löndum hafi ekki skilað tilætluðum árangri og sé að mörgu leyti óraunhæft þegar kemur að hlutleysi gagnvart stórum fjárfestum. Við munum skoða þessi mál og umræðuna erlendis," segir Þór í Viðskiptablaðinu í dag.

Að sögn hafa fyrri leiðbeiningar mælst vel fyrir og gefa eðlilegan sveigjanleika. "Stóru útrásarfyrirtækin hafa nýtt sér þessar leiðbeiningar til að kynna sig erlendis þar sem fjárfestar og viðskiptavinir hafa spurt um stöðu þessara mála hérlendis. Við vorum tímanlega með þessar leiðbeiningar og þær hafa skilað árangri," segir Þór.

Sjá ítarlegt viðtal við Þór í Viðskiptablaðinu í dag.