Hans-Ole Jochumsen, framkvæmdastjóri hjá Nasdaq kauphallasamstæðunni og fyrrverandi stjórnarformaður íslensku kauphallarinnar, segir að íslenskur hlutabréfamarkaður komi til með að njóta góðs af reglubreytingum sem innleiddar verða í Evrópu frá og með næsta ári. Reglubreytingarnar eru í raun tvenns konar: annars vegar er það MiFID II sem nær fyrst og fremst til kauphalla og á að auka gagnsæi á mörkuðum, hins vegar er nýtt regluverk um verðbréfamiðstöðvar (e. CSDR) sem á að samræma viðskipti á milli Evrópulanda

MiFID II reglugerðin tekur gildi þann 3. janúar 2018 innan evr- ópska efnahagssvæðisins og kemur hún í stað hinnar gömlu MiFID reglugerðar sem tók gildi árið 2007. Hans-Ole segir að í einföldu máli megi tala um MiFID sem Kauphallarreglur Evrópu og að endurbætt reglugerð eigi að vinna á annmörkum þeirrar fyrri.

„Reglurnar eru auðvitað tæknilegar og flóknar en ég held að meginatriðið sé það að stjórnmálamönnum Evrópu þótti ekki takast nógu vel til með fyrri reglunum. Tilgangurinn var að auka gagnsæi í verðbréfaviðskiptum, en staðreyndin er sú að mörgum árum seinna fara enn 20 til 40 prósent viðskipta fram utan kauphallanna,“ segir Hans-Ole. Hann segir aukið gagnsæi leika lykilhlutverk í skilvirkri verðmyndun og að strangari reglur með sterkari upplýsingaskyldu muni gera evrópska markaði gagnsærri.

„Markaðsaðilar munu þurfa að láta kauphallirnar fá mun meiri gögn og kauphallir og yfirvöld hafa því mun betri tól til að grípa inn í ef eitthvað grunsamlegt á sér stað. Það verður mun auðveldara að fylgjast með á gagnsærri markaði. Þetta eru klárlega góðar fréttir fyrir fjárfesta og markaðinn í heild, þó það taki alltaf einhvern tíma að aðlagast nýjum og flóknum reglum.“

Ný reglugerð um verðbréfamiðstöðvar kemur jafnframt til með að hafa mikil áhrif á íslenskan markað, en Nasdaq rekur bæði kauphöll og verðbréfamiðstöð hérlendis. Á meðan kauphöllin sér um að tengja saman kaupendur og seljendur sér verðbréfamiðstöðin um útgáfu og vörslu rafrænna verðbréfa og uppgjör þeirra. Með nýju regluverki verður settur sameiginlegur rammi utan um starfsemi allra verðbréfamiðstöðva innan EES og þær munu þurfa að sækja um leyfi fyrir starfsemi sinni á grundvelli reglugerðarinnar.

„Öll löndin innan EES verða að fylgja þessari reglugerð og það er ekkert sem heitir íslensk túlkun á þessum reglum. Jafnvel þótt verðbréfamiðstöðvar séu starfandi í dag þurfa þær að sækja um leyfi og geta að því fengnu boðið þjónustu sína yfir landamæri í Evrópu, það gildir einnig um verðbréfamiðstöð Nasdaq á Íslandi,“ segir Hans-Ole. Þegar allar verðbréfamiðstöðvar Evrópu starfa eftir sömu reglum verður mun auðveldara að búa til sjálfvirk og skilvirkari kerfi innan álfunnar. Þá verður mun þægilegra fyrir þá sem vilja stunda hlutabréfaviðskipti á milli landa að gera slíkt, sem gæti þýtt að Ísland verði hluti af fjárfestingamengi fjárfesta sem horfðu ekki hingað áður.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .