Stjórn Rannsóknarnámssjóðs verður áfram heimilt að efna til samstarfs við einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir um fjármögnun sérstakra styrkja til rannsóknartengds framhaldsnáms á afmörkuðum sviðum rannsókna, samkvæmt nýjum reglum um sjóðinn sem menntatmálaráðherra hefur nú staðfest. Hlutverk sjóðsins er að veita styrki til rannsóknartengds framhaldsnáms að loknu grunnnámi við háskóla, sem bjóða framhaldsnám og stunda vísindalegar rannsóknir. Tekjur sjóðsins eru framlög í fjárlögum ár hvert auk annarra framlaga. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn styrki nemendur í rannsóknarnámi á Íslandi og erlendis. Sé námið stundað við háskóla erlendis skal rannsóknaverkefnið lúta að íslensku viðfangsefni og vísindamaður með starfsaðstöðu á Íslandi taka virkan þátt í leiðbeiningu nemandans. Menntamálaráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins til þriggja ára í senn.