Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, hefur gefið út nýja reglugerð um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar, og tekur hún gildi þegar í stað. Reglugerðin, sem byggist á því grundvallaratriði að efnalítið fólk geti leitað réttar síns fyrir dómstólum, leysir af hólmi reglugerð um starfshætti gjafsóknarnefndar frá árinu 2000. Í reglugerðinni er fjallað með fyllri hætti en áður um skilyrði gjafsóknar, hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar, þau atriði sem líta ber til við mat á fjárhagsstöðu umsækjanda og heimildir til takmörkunar á gjafsókn.

Tekjustofn ekki yfir 1,6 milljónum

Við mat á því hvort gjafsókn verði veitt vegna efnahags umsækjanda skal miða við að stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars og fjármagnstekjur nemi ekki hærri fjárhæð en samtals 1,6 milljónum króna. Sé umsækjandi í hjúskap eða sambúð ber að hafa hliðsjón af tekjum maka og skulu samanlagðar árstekjur ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur kr. 2,5 milljónum króna. Þegar umsækjandi er yngri en 18 ára skal höfð hliðsjón af samanlögðum tekjum foreldra. Hækka skal viðmiðunarmörk tekna um kr. 250.000 fyrir hvert barn undir 18 ára aldri, þar með talin stjúp- og fósturbörn, sem búa hjá umsækjanda eða hann elur að mestum hluta önn fyrir.

Veita má einstaklingi gjafsókn þótt tekjur hans séu yfir viðmiðunarmörkum í nokkrum tilvikum, m.a. ef framfærslukostnaður er óvenjulega hár af einhverjum ástæðum, aflahæfi umsækjanda er verulega skert til frambúðar vegna varanlegrar örorku, og umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili á ekki íbúðarhúsnæði og leigukostnaður er verulegur o.fl. Þá má synja einstaklingi um gjafsókn þótt tekjur hans séu undir viðmiðunarmörkum ef t.d. umsækjandi, maki hans eða sambúðaraðili á peningainnistæðu, hlutabréf, skulda¬bréf, fasteign, lausafé eða aðrar eignir sem skipt geta máli þegar metin er greiðslu¬geta hans til að kosta málsókn sína sjálfur, eða eignir umsækjanda, maka hans eða sambúðaraðila umfram skuldir eru verulegar.

Gjafsóknarnefnd skal að jafnaði innan fjögurra vikna frá því nefndinni berst umsókn um gjafsókn, sem studd er fullnægjandi rökum og gögnum, gefa dóms- og kirkjumálaráðuneytinu skriflega og rökstudda umsögn um umsóknina. Mæli nefndin með því að gjafsókn verði veitt skal tekið fram fyrir hvaða dómstóli hún gildir, hvort hún gildir fyrir héraðsdómi eða Hæstarétti og hvort hún er takmörkuð og þá með hvaða hætti.