Í gær bárust fregnir af því að umtalsverðar nýjar olíu- og gaslindir hafi fundist í Norðursjó. Hefur þessi fundur verið staðfestur af ChevronTexaco, en olían fannst á Rosebank/Lochnagar svæðinu um 78 mílur vestur af Esha Ness á Settlandseyjum, Rágert er að frekari boranir verði gerðar á svæðinu til að meta endanlega hvað þarna er að finna.

Í frétt í Viðskiptablaðinu í dag kemur fram að forsvarsmenn ChevronTexaco í Evrópu segjast himinlifandi yfir þessum fundi sem hvetji til frekari leitar um allan heim.

Formaður skoska þjóðarflokksins Alex Salmond fagnaði þessum fréttum og sagði að búist væri við að svæðið gæti gefið 500 milljónir tunna af olíu.

"Þetta er meiriháttar uppgötvun og sannarlega stór fundur. Þetta styður ágiskanir um að það séu enn óunnar um 50 milljarðar tunna af olíu í Norðursjónum. Það er umtalsvert meira en þegar er búið að vinna úr Norðursjónum til þessa og bendir til að verulega mikið meiri olíu sé að finna á skosku hafsvæði.

Með hliðsjón af háu olíuverði, þá sýnir þessi nýjasta uppgötvun að enn megi vænta gríðarlegra tekna af olíunni," sagði Alex Salmond í samtali við vefsíðu Times Online.