Aðildarríki Evrópusambandsins hafa formlega innleitt nýjar viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna Úkraínudeilunnar. Hvenær þær koma til áhrifa er hins vegar enn óráðið, en það gæti gerst á næstu dögum. BBC News greinir frá þessu.

Hinar nýju viðskiptaþvinganir koma meðal annars í veg fyrir að olíufyrirtæki Rússa hafi aðgang að fjármagni á Evrópumarkaði. Þar á meðal er olíurisinn Rosneft sem er í eigu rússneska ríkisins. Kemur þetta sér illa fyrir fyrirtækið sem bað rússneska ríkið um 42 milljarða dollara lán í síðasta mánuði. Hins vegar munu þær ekki hafa áhrif á gasiðnað.

Rússar neita því að hafa sent hermenn til liðs við aðskilnaðarsinna í Úkraínu og hafa varað við því að þeir gætu bannað alþjóðleg flug í gegnum lofthelgi sína verði viðskiptaþvinganirnar að veruleika.