Bandaríkin hafa tilkynnt að þeir ætla að leggja viðskiptaþvinganir á Írani vegna tilrauna Írana með skotflaugar (e. ballistic missiles). 13 einstaklingar og 12 fyrirtæki og stofnanir eru á lista Bandaríkjamanna. Þetta kemur fram í frétt Reuters fréttaveitunnar .

Í júlí árið 2015 skrifuðu Bandaríkin og Íran undir tímamótasamning varðandi kjarnorkuframleiðslu þeirra síðarnefndu og í kjölfarið var ýmsum viðskiptaþvingunum aflétt. Varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur þó rétt samkvæmt samningnum til að beita þvingunum vegna þróunar eldflaugakerfisins.

Í byrjun árs 2016 afléttu Bandaríkjamenn viðskiptaþvingunum á Írani eftir að Alþjóðakjarnorkustofnunin staðfesti það að Íranir hefðu fylgt nauðsynlegum afvopnunarskrefum. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði nýverið um, hafði Donald Trump sagt að hann vildi ekki sýna Írönum neina linkind, og hann virðist hafa staðið við það loforð.

Árla morguns sendi Trump frá sér tíst , þar sem að hann sagði að Íranir væru að leika sér með eldinn og tók jafnframt fram að Obama hafði verið of linur við Íranina, en það myndi hann sjálfur ekki vera.