Kaup Framtakssjóðs Íslands (FSÍ) á 60% hlut í lyfjafyrirtækinu Invent Farma ehf. eru gerólík öðrum fjárfestingum sjóðsins. Til þessa hefur FSÍ fjárfest í fyrirtækjum sem lentu í Fjárhagserfiðleikum í kjölfar falls fjármálakerfisins 2008. Það var í anda upphaflegrar stefnu sjóðsins, og fólst meðal annars í kaupum á félögum sem Landsbankinn eignaðist í kjölfar hrunsins.

Ólíkt þeim félögum hefur Invent Farma verið í góðum rekstri, eins og segir í tilkynningu FSÍ um kaupin, auk þess sem tenging félagsins við Ísland er aðeins í gegnum eignarhald. Hafliði Helgason, upplýsingafulltrúi FSÍ, segir kaup á 60% hlut í lyfjafyrirtækinu ekki marka breytta fjárfestingarstefnu sjóðsins og að fjárfestingin samrýmist hlutverki FSÍ. Ytra umhverfi hafi breyst á síðustu árum, nú sé efling gjaldeyristekna afar aðkallandi verkefni í íslensku atvinnulífi og því falli Invent Farma vel að hlutverki og stefnu FSÍ. „Aukið gjaldeyrisinnflæði styður við gengi krónunnar og stuðlar að hraðara afnámi hafta en ella,“ segir Hafliði

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .