Í dag kemur til landsins tólfta flugvél WOW air flotans. Um er að ræða glænýja Airbus A321-211 flugvél, árgerð 2016 sem kemur beint frá verksmiðju Airbus í Hamborg. Vélin er með tvo auka eldsneytistanka sem auka drægni vélarinnar til mikilla muna. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Wow air.

Í tilkynningu Wow air kemur einnig fram að farþegarýmið í nýju Airbus A321 vélum Wow air sé „einstaklega breitt og rúmgott.“ Í vélinni verða sæti fyrir 220 farþega en þessi flugvél getur þó rúmað 230 farþega í sæti. „Fótaplássið er því meira fyrir farþega en gengur og gerist hjá öðrum lággjaldaflugfélögum,“ er tekið fram í tilkynningunni.

Haft er eftir Skúla Mogensen, forstjóra og stofnenda Wow air, að það sé ánægjulegt að geta boðið farþegum flugfélagsins upp á nýjustu flugvélarnar á Íslandi. „Nýju Airbus A321 flugvélarnar eru hljóðlátar, sparneytnar og umhverfisvænar. Við getum því með góðri samvisku haldið áfram að bjóða upp á lág verð á sama tíma og þægindin eru í fyrirrúmi,“ segir Skúli Mogensen forstjóri og stofnandi WOW air,“ er jafnframt haft eftir honum.