Hlutabréfaverð í bandarísku smávöruverslanakeðjunni Bed Bath & Beyond hefur tvöfaldast undanfarna viku og farið úr 5,7 dölum á hlut upp í 11,6 dali á hlut. Hlutabréf félagsins er nýjasta jarmhlutabréfið vestanhafs, að því er kemur fram í grein CNBC.

Félagið var mest leitaða fyrirtækið á undirvefsíðunni /Wallstreetbets á samfélagsmiðlinum Reddit. Áhugafjárfestar á undirvefsíðunni hafa stöðugt keypt bréfin að undanförnu.

Mikil skortsstaða er í fyrirtækinu og hefur myndast svokallað „short squeeze“. Þurfa þá fjárfestar sem tóku skortsstöðu að kaupa bréfin aftur, sem skapar aukna eftirspurn og leiðir til hækkunar á gengi bréfanna.

Velta Bed Bath & Beyond hefur dregist saman á undanförnum misserum og hefur félagið misst viðskiptavini sína til samkeppnisaðila. Félagið er einnig að leita af nýjum forstjóra eftir að Mark Tritton hætti hjá félaginu í júní.

Gengi bréfa í vinsælustu jarmhlutabréfunum, Gamestop og AMC, hefur einnig hækkað talsvert að undanförnu. Þá hefur gengi bréfa AMC hækkað um 56% síðastliðna viku og Gamestop um 25% á sama tímabili.