Aðeins tvö kaupskip sigla undir íslenskum fána og skráð hér á landi. Á meðal þeirra skipa sem uppfylla kröfur sem kaupskip er Lagarfoss, nýtt skip Eimskips. Það er skráð og siglir undir fána Antígva og Barbúda eins og tvö önnur skip Eimskips.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að árið 2007 hafi lögum verið breytt í því skyni að stuðla að að skráningu kaupskipa hér á landi og kanni starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins hvort útfæra megi lagaumhverfi í kringum skráningu kaupskipa á Íslandi með þeim hætti að Ísland verði samkeppnishæft á alþjóðavettvangi á sviði kaupskipaútgerðar. Stefnt er að því að hópurinn ljúki störfum í desember. Blaðið segir ekki hafa fengið svör við því í ráðuneytinu hversu miklar fjárhæðir fælust í þeim ávinningi fyrir ríkissjóð ef íslenski kaupskipaflotinn fengist á íslensku skipaskrána.

Í blaðinu segir að Fáfnir Offshore hafi haft áform um að skrá skip sitt í Fjarðarbyggð. Í ljós hafi komið að slíkt gerði það að verkum að skipið yrði ekki samkeppnishæft við nágrannaþjóðir eins og Færeyinga en þar í landi eru Arnarfell og Helgafell Samskipa skráð.