Lán til viðskiptavina gömlu bankanna þriggja voru sum hver færð yfir til nýju bankanna: Arion, Íslandsbanka og Landsbanka, á 0 krónur. Það á sérstaklega við um mjög stór lán til eignarhaldsfélaga sem sködduðust mikið í bankahruninu.

Alls er virði lána nýju bankanna þriggja samkvæmt lánasamningum samtals um 3.300 milljarðar króna. Bókfært virði þeirra er þó einungis um 1.470 milljarðar króna. Lánin hafa því verið færð niður um 55 prósent í bókum bankanna. Þau lán sem færð voru frá Kaupþingi yfir til Arion banka voru færð niður mest allra, eða um 69,1 prósent. Þetta kemur fram í stofnefnahagsreikningum bankanna þriggja.

Bankarnir vilja samt sem áður ekki meina að þeir séu búnir að afskrifa lán fyrir þessa upphæð, enda rukka þeir enn lánin líkt og þau hafi alls ekki verið færð neitt niður. Eiginlegar afskriftir fara því ekki fram fyrr en að bankarnir eru búnir að ná eins miklu til baka og þeir geta.

Tvöfalt kerfi innan bankanna

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að bankarnir þrír reki í raun tvöfalt kerfi við innheimtu lána sinna. Annars vegar er upphæð lánanna birt á nafnvirði, eða eins og hún kemur fram í skuldaskjali viðkomandi lántakanda. Það eru þær tölur sem flestir starfsmenn sjá þegar þeir fletta upp viðkomandi lánum í kerfum bankanna. Hins vegar er annað lánakerfi rekið við hliðin á hinu formlega sem hópur lykilstarfsmanna hefur aðgang að. Þar koma fram upplýsingar um á hvaða virði lánin voru færð frá gamla bankanum yfir í þann nýja.

Sjá ítarlega umfjöllun um tvöfalt kerfi bankanna í Viðskiptablaðinu sem kom út í gær.