Fráfarandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna mælist samanlagt með 23,8% fylgi í nýjustu könnun MMR á fylgi flokkanna. Samfylking mælist með 11,7% fylgi samanborið við 13% í fyrri könnun. VG mælist með 12,1% nú miðað við 11,6% áður. Stuðningur við fráfarandi ríkisstjórnina mælist nú 31,5% en mældist 32,6% í síðustu könnun. Þá mælast nýju stjórnarflokkarnir með rétt rúmlega 48% fylgi í sömu könnun. Af hinum flokkunum bætir Björt framtíð við sig fylgi á milli kannana. Flokkurinn mælist með 11,3% fylgi borið saman við 7,7% í síðustu mælinu.

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist nú 28,4%, borið saman við 26,7% í síðustu mælingu og Framsóknarflokkurinn mælist nú með 19,9% fylgi, borið saman við 22,4% í síðustu mælingu.

Af öðrum flokkum má nefna að Pírataflokkurinn mælist nú með 6,5% fylgi í könnun MMR borið saman við 7,5% í síðustu mælingu. Dögun mælist nú með 3,8% fylgi, Lýðræðisvaktin með 1,6% fylgi, Hægri grænir með 1,4% fylgi, Flokkur heimilanna með 1,2% fylgi, Regnboginn með 0,8% fylgi, Sturla Jónsson með 0,5% fylgi, Landsbyggðarflokkurinn með 0,5% og Alþýðuflokkurinn með 0,1% fylgi.