Í desembermánuði voru skráð 200 ný einkahlutafélög á Íslandi, en allt árið 2016 fjölgaði nýskráningum einkahlutafélaga um 13% frá fyrra ári að því er fram kemur í frétt Hagstofunnar .

„Alls voru 2.666 ný einkahlutafélög skráð á árinu, borið saman við 2.368 árið 2015," segir í fréttinni.

„Hlutfallsleg fjölgun nýskráninga var mest í leigustarfsemi og ýmissi sérhæfðri þjónustu, þar sem þeim fjölgaði úr 176 í 272, eða um 55% frá fyrra ári.

Einnig má nefna að nýskráningum í flutningum og geymslu fjölgaði árið 2016 úr 46 í 60 (30%). Nýskráningum fækkaði í rekstri gististaða og veitingarekstri um 5% frá fyrra ári (úr 169 í 161).

Ef skoðuð er skipting á nýskráningum einkahlutafélaga og hlutafélaga milli landshluta árið 2016 sést að þeim fjölgaði hlutfallslega mest á Austurlandi, þar sem 71 félag var nýskráð árið 2016, borið saman við 52 nýskráningar árið 2015 (37%).

Nýskráningum fjölgaði í öllum landshlutum frá 2015 til 2016 nema á Norðurlandi vestra, þar sem fjöldinn stóð í stað milli ára (32 nýskráningar hvort ár).“