Magna, nýjum dráttarbáti Faxaflóahafna, verður að líkindum siglt til Hollands á næstu dögum til viðgerða. Vandamál hafa komið upp í aðalvél bátsins og spili. Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir þetta bagalegt og tefji m.a. fyrir þjálfun áhafnar. Ljóst sé að fyrirtækið þurfi ekki að bera kostnað af viðgerðinni. Báturinn kostaði rétt liðlega einn milljarð króna.

Damen í Hollandi smíðaði bátinn í skipasmíðastöð sinni í Hi Phong í Víetnam. Áhöfn frá skipasmíðastöðinni sigldi bátnum frá Víetnam til Reykjavíkur með viðkomu í Evrópu, alls um 10.350 sjómílna leið.

„Magni er í ólagi. Meginmálið er að það fór á hann óhrein olía í Singapore. Það hefur í för með sér að hreinsa þarf alla tanka og lagnir. Spilið, sem er dráttarbátnum mjög mikilvægt, lekur glussa sem á ekki að gerast. Þegar vélin og spilið eru ekki í lagi er ekkert í lagi,“ segir Gísli.

Auk þessa eru nokkur önnur atriði sem þarf að lagfæra en þau eru ekki eins stór í sniðum.

Á skásta tíma

„Ég reikna með að bátnum verði siglt út þannig að hægt verði að lagfæra þessi atriði þar. Skipasmíðastöðin hefur gengist við ábyrgð á öllu því sem aflaga hefur farið. Það er auðvitað enginn ánægður með það að fá nýjan bát sem er ekki í lagi.“

Gísli segir að þetta komi kannski upp á skásta tíma. Ekki er von á stórum farþegaskipum á þessu sumri og það sé fyrst og fremst í haust og vetur sem Faxaflóahafnir þurfi á Magna að halda. Það styttist í að stóru flutningaskip Eimskip hefji siglingar til og frá landinu en nú þegar hefur systurskip þeirra í eigu Royal Greenland reglulega viðkomu í Sundahöfn.  En þegar kraftmiklar haustlægðir og vetrarveður fara að láta á sér kræla sé nauðsynlegt að hafa Magna til taks.