Gríðarstór gróðurhús sem notast við sjó til við ræktun gætu, ásamt sólarorkuverum, verið lausn til þess að framleiða fæðu, drykkjarvatn og hreina orku í eyðimörkum.

Breska blaðið Guardian greinir frá nýju verkefni sem kallast „Skógur í Sahara“ en með verkefninu hyggjast sérfræðingar s.s. verkfræðingar og arkitektar vinna saman að byggingu fyrrnefndra gróðurhúsa og orkuvera í Sahara eyðimörkinni. En eyðimörkin er sú stærsta í heimi.

Áformað er að framleiða orku og hita með hjálp stórra spegla sem myndu fanga til sín sólarljósið, en ef það er eitthvað sem ekki skortir í brennheitri Sahara eyðimörkinni þá er það sólarljós. Tilraunaverkefni eru þegar hafin á Tenerife, Oman og í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum.

Plöntur geta ekki vaxið í eyðimörkum vegna hættu á ofþornun þar semhitastig er of hátt. Einnig þurfa plöntur næringu og vatn en það er af skornum skammti í Sahara.

Sólarorka verður því notuð til þess að pumpa sjó í gróðurhúsin. Sjórinn verður síðan notaður til þess að kæla andrúmsloft gróðurhúsanna, innan veggja þeirra verður hitastigið því 15°C lægra en utandyra. Þannig verður öll ræktun auðveldari.