Nielsen Restaurant er meðal tíu fyrirtækja sem hafa verið valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum Til sjávar og sveita í ár. Hugmyndin snýr að framleiðslu á salatolíu úr vannýttum íslenskum villtum jurtum sem, að sögn annars eiganda, hefur ekki tíðkast hérlendis áður.

Eigendur staðarins, sem er á Egilsstöðum, eru þau Sólveig Edda Bjarnadóttir og Kári Þorsteinsson og hafa þau frá opnun staðarins ávallt lagt mikla áherslu á að nýta hráefni sem finnast þar í kring.

„Við höfum fengið merkilega margar spurningar um hvaða dressingu við séum að láta á salatið okkar og enn fremur hvort við séum að selja hana. Þá kviknaði þessi hugmynd að reyna að gera eitthvað meira úr þessu. Í vor var síðan kynning á hraðlinum Til sjávar og sveita hér á Egilsstöðum. Við höfðum verið með hugmyndina í kollinum í smá tíma þannig við ákváðum að skrá okkur til leiks,“ segir Kári Þorsteinsson.

Kári er kokkur til margra ára en hann vann til að mynda á Dill sem er eini íslenski veitingastaðurinn sem hlotið hefur Michelin stjörnu. Hann hefur verið að gera sambærilegar olíur í mörg ár en segir þátttöku í hraðlinum í raun næsta skref. Hann viti lítið um hvernig best sé að koma álíka vöru í verslanir og segir gaman að skoða málið frá öðru sjónarhorni en áður.

„Með hraðlinum erum við að sjá hvort það sé einhver fótur fyrir þessu. Læra hvað maður þarf að gera til að koma vöru í búð, til dæmis hver markaðsfræðin er þar að baki. Það gæti líka verið að fleiri hugmyndir vakni með þátttökunni, það er margt í atvinnueldhúsum sem hægt er að markaðssetja og selja í búðum,“ segir Kári og bætir við að hann og Sólveig hafi þó nokkur verkefni í pokahorninu.

Yfir sjötíu umsagnir bárust

Markmið hraðalsins Til sjávar og sveita er að hvetja til aukinnar nýsköpunar og er lögð áhersla á fyrirtæki sem eru í hátækni í matvælaiðnaði, nýjum lausnum í landbúnaði og haftengdum iðnaði. Yfir sjötíu hugmyndir bárust hraðlinum í ár, sem hefst 21. september næstkomandi, og fer nú fram í annað sinn.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér.