*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Erlent 8. júní 2015 17:37

Nýjungar Apple virðast ekki heilla fjárfesta

Apple kynnir nýjungar sínar á árlegum fundi í dag. Verð í hlutabréfum fyrirtækisins hefur lækkað það sem af er degi.

Ritstjórn

Á meðal þess sem nú er kynnt á árlegum fundi Apple, Worldwide Developers Conference, er nýjasta útgáfa OS X stýrikerfisins, ný tónlistarveita, breytingar sem auðvelda þróun nýrra forrita fyrir Apple Watch snjallúrið og nýtt Apple TV.

Áhugavert er að fylgjast með verðþróun hlutabréfa Apple og umræðunni um kynningu fyrirtækisins á sama tíma. Fjárfestar virðast vera á tánum, því hlutabréfaverðið rokkar upp og niður. Verð í hlutabréfum Apple hefur lækkað um yfir 1% það sem af er degi og því virðist kynningin ekki hafa verið í samræmi við væntingar fjárfesta.

Umræðan á Twitter hefur einnig verið frekar neikvæð. Þeir sem leggja orð í belg hafa meðal annars sagt að nýjungarnar í OS X minni um of á nýjustu útgáfu Windows stýrikerfisins og séu því ófrumlegar. Einnig er kvartað yfir því að hreinlega sé of lítið af nýjum tíðindum á fundinum. Greinarhöfundur Marketwatch segir að þó hin nýja tónlistarveita fyrirtækisins sé jákvætt skref sé hún ólíkleg til að afla fyrirtækinu nógu mikilla tekna.

Fundinum er hins vegar ekki lokið. Þekkt er að á fundum sem þessum bíða Apple-menn gjarna fram á síðustu stundu með krassandi fréttir.

Stikkorð: Apple