Á haustmánuðum mun Hlemmur – Mathöll standa fyrir úti-matarmarkaði, sem haldinn verður fyrir utan mathöllina sjálfa. Ragnar Egilsson, framkvæmdastjóri Hlemms – Mathallar, segir að á haustmánuðum muni opnunartímarnir ráðast eftir veðri. „Við ætlum að sníða okkur stakk eftir vexti,“ segir Ragnar.

Markaðurinn verður haldinn næstu helgar og um aðventuna, en leggst svo í dvala yfir háveturinn og þar til næsta sumar. „Þá ætlum við að keyra á alla sumarmánuði,“ segir framkvæmdastjórinn. Á fyrsta markaðnum tóku þrír að­ ilar þátt, Bjarteyjarsandur, Ramen Lab og Íslenskir grænmetisbændur. Ragnar segir að markaðurinn sé haldinn Hverfisgötumegin, þeim megin þar sem strætóarnir stoppa. „Þar erum við með afnot af torginu frá Reykjavíkurborg,“ bætir hann við.

Nýtt inn í íslenska matarflóru

Ragnar segir að þau ætli að koma með eitthvað nýtt inn í íslenska matarflóru með því að hafa svona útimarkað þar sem hægt er að sjá hvaðan vörurnar koma og tala beint við framleiðendur. „Þetta er svona það sem mætti kalla farmers market ,“ bætir hann við.

„Þetta er ekki eingöngu fortíð­arþrá, við höldum að þetta sé vænlegasta viðskiptaformið fyrir upplýsta neytendur, sem vilja vera í beinum samskiptum við framleið­ endur. Þetta er besta leiðin til að tryggja gæðin á hráefninu, þetta er upprunamerkt og þú sérð þetta með eigin augum,“ segir Ragnar.

Þegar hann er spurður út í það hvort slíkur markaður í miðri Reykjavík sé nýlunda svarar hann: „Það eina sem ég veit af sem hefur verið svona útimarkaður með mat var upphaflega hjá Borðinu sem hefur fært sig í Hörpuna. Þeir voru með það úti hjá sér meðan þau voru enn í Nóatúninu.“

Svar við réttmætri gagnrýni

Að mati Ragnars voru útimarkaðir fyrsta form neytendaverndar í Evrópu. „Með því að hafa allt fyrir opnum tjöldum og uppi á borði gátu framleiðendur tryggt neytendum talsvert meiri gæði og neytendavernd en ella. Við viljum miklu frekar sjá heilan fisk til dæmis, þar sem hægt er að meta gæðin, og glansinn, frekar en eitthvað innpakkað og geymt í kæli,“ segir Ragnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .