Þjóðarleiðtogar fimm stærstu nýmarkaðsríkja heims hafa skrifað undir samkomulag um stofnun á þróunarbanka og neyðarsjóði. Á bak við bankann stendur Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka og skiptist eignarhlutur í honum jafnt á milli ríkjanna og leggja honum til jafnvirði 50 milljarða dala. Stefnt er á að upphæðin verði tvöfalt hærri þegar fram í sæki.

Höfuðstöðvar bankans verða í Sjanghæ í Kína, að því er fram kemur í umfjöllun breska útvarpsins ( BBC ) um bankann.

Það var Dilma Rousseff, forseti Brasilíu, sem svipti hulunni af bankanum á fundi leiðtoga nýmarkaðsríkjanna í Brasilíu í gær.

Í umfjöllun BBC segir að leiðtogar ríkjanna fimm hafi gagnrýnt alþjóðlegar stofnanir, ekki síst Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, fyrir að hafa ekki veitt þeim nógu mikið vægi í atkvæðagreiðslum um málefni aðildarríkja stofnanna.