Nýnemum í framhaldsskólum fækkar en þeim sem fara í bóknám fjölgar á kostnað nemenda í starfsnámi. Síðan árið 2006 þegar flestir nýjir nemendur hófu nám á framhaldsskólastigi hefur nýnemum fækkað á ný og voru þeir 4.595 árið 2016.

Á árabilinu 1997 til 2016 voru þeir fæstir árið 2002 eða 4.268 en flestir árið 2006 eins og áður sagði, eða 5.429. Árið 2006 var einmitt árið sem fjölmennur árgangur hóf nám í framhaldsskólum að því er Hagstofan greinir frá.

Margir starfsnemar hófu nám í bóknámi

Á fyrri hluta mælingartímans hóf um fjórðungur nýnema á framhaldsskólastigi nám á starfsnámsbrautum en hlutfallið hefur farið lækkandi síðan og var hlutfallið einungis 16% árið 2016.

Hluti af skýringunni er að hluti nemendanna hóf nám á bóknámsbraut áður en skiptu síðar yfir í starfsnám. Meirihluti nýnema í starfsnámi eru drengir en stúlkur voru stærri hluti nýnema í bóknámi. Munurinn milli kynjanna minnkaði þó á tímabilinu.

Dregur saman með kynjunum

Voru stúlkur 57% nýnema í bóknámi árið 1997 en tæplega 53% árið 2016 og drengir voru tæplega 61% nýnema í starfsnámi árið 1997 en rúmlega 64% árið 2016.

Um 90,7% nýnema árið 2016 voru 16 ára, en þó langflestir séu iðulega á þeim aldri var það hæsta hlutfallið á mælingartímanum. Á sama tíma hefur þeim fækkað sem hefja nám á síðari aldursbili, á árunum 1997 til 2009 voru þeir mest 1.122, en fæstir 722, en árið 2010 voru þeir 561 og 369 árið 2016, eða 8% nýnema. Þá voru hins vegar 60 nýnemar í framhaldsskólum 15 ára og yngri.

Á sama tíma hefur meðalaldur lækkað töluvert, meðalaldur nema við upphaf bóknáms hefur farið úr tæplega 21 ári árið 1997 niður í rétt rúmlega 17 ár árið 2016. Yfir allt tímabilið er meðalaldurinn 19 ár, en í starfsnámi er hann tæplega 22 ár. Ekki er sama lækkun nemenda í starfsnámi, meðalaldurinn hefur sveiflast á milli þess að vera rúmlega 20 ár í tæplega 24 ár. Árið 2016 var meðalaldurinn 22 ára.

Hæst hlutfall annarra kynslóðar innflytjenda í framhaldsnám

Nýnemum af erlendum bakgrunni fjölgaði talsvert á tímabilinu, en á árabilinu 2012 til 2016 var hærra hlutfall annarrar kynslóðar innflytjenda nýnemar í framhaldsskólum heldur en nemenda sem ekki hafa erlendan bakgrunn. Munurinn er þó ekki mikill, en hlutfall þeirra af þessum hópum sem gerðust nýnemar var 95,5% á móti 95,2%.

93,6% þeirra sem hafa íslenskan bakgrunn en eru fæddir erlendis gerðust nýnemar, en ef annað foreldrið er erlent lækkaði hlutfallið niður í 91,8% ef þeir eru sjálfir fæddir á Íslandi. Ef þeir eru fæddir erlendis en með annað foreldrið erlent er hlutfallið komið niður í 84,3% og ef um er að ræða innflytjendur sem eiga báða foreldra af erlendum uppruna er hlutfallið komið niður í 82,3%.