Bandaríski seðlabankinn tilkynnti í dag að hann hafi látið búa til nýjan 100 dala seðil og verði honum dreift í haust. AP-fréttastofan segir langt í frá að nýi seðillinn komi á óvart enda hafi hann upphaflega átt að fara inn í hagkerfið fyrir tveimur árum.

Seðillinn ku vera mun betri en forverinn með fleiri öryggiskóðum sem gera fölsurum erfitt fyrir en 100 dala seðillinn mun vera vinsæll í þeirra röðum. Hönnun seðilsins hefur staðið yfir í heil tíu ár. Hún hófst árið 2003. Síðan þá er búið að endurnýja alla aðra dollaraseðla nema eins dala seðilinn.

Óvíst er hvort fólk taki almennt eftir því hvort það fær nýjan seðil í hendur í haust en mynd af bandaríska stjórnmálamanninum Benjamín Franklin mun áfram prýða seðilinn.