Hafnarfjarðarbær og Eykt skrifuðu á dögunum undir samning um hönnun og byggingu á nýjum skóla í Skarðshlíð, verk sem auglýst var í alútboði á vormánuðum. Skólinn samanstendur af húsnæði fyrir tveggja hliðstæðu grunnskóla um 6.800 m2, tónlistarskóla um 480 m2, leikskóla um 760 m2 og íþróttahús um 870 m2, samtals um 8.910 m2. Eykt mun hefja framkvæmdir við skólann nú í ágúst og mun uppbygging eiga sér stað í þremur áföngum. Fullnaðarverklok eru 15.júní 2020 og er samningsfjárhæðin í heild er um 4 milljarðar króna að því er kemur fram í fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.

Fyrsta áfanga uppbyggingar á að vera lokið 6. júlí 2018 og mun þá grunnskóli í Skarðshlíð flytja í húsnæðið eða nemendur í 1 til 4.bekk sem hefja skólagöngu sína í safnaðarheimili Ástjarnarsóknar nú haustið 2017. 15. júní 2019 á húsnæði fyrir leikskóla að vera fullbúið og áframhaldandi uppbygging húsnæðis fyrir grunnskóla. Þann 15.júní 2020 á húsnæðið að vera fullbyggt og þar með talið grunnskóli, tónlistarskóli og íþróttahús við skólann.

„Byggingarnar verða hannaðar samkvæmt hugmyndafræði algildrar hönnunar. Í því felst að hanna góðar lausnir með jafnrétti og vellíðan alls fólks í fyrirrúmi,“ segir að lokum tilkynningunni.