Landsbréf hf., dótturfélag Landsbankans, hafa lokið fjármögnun á nýjum framtakssjóði, Horni II slhf. Hluthafar eru um 30 talsins og þar af eru lífeyrissjóðir með um 80% hlut. Stærð sjóðsins er ríflega 8,5 milljarðar króna og að sögn Sigþórs Jónssonar, framkvæmdastjóra Landsbréfa, og sjóðstjóranna Hermanns Más Þórissonar og Steinars Helgasonar, ætlar sjóðurinn sér að vera sýnilegur í íslensku atvinnulífi á næstu misserum.

Hermann Már og Steinar stýrðu Horni fjárfestingarfélagi, eignarhaldsfélagi Landsbankans, frá árinu 2009. Eins og greint var frá á sínum tíma stóð til að skrá Horn á markað. Hætt var við þau áform og var ákveðið að fara aðra leið. Í byrjun september 2012 tóku Landsbréf yfir rekstur og stýringu eigna Horns. Horn II var síðan stofnað í október og er gert ráð fyrir að hluthafar þess félags muni njóta forgangs að eignum Horns fjárfestingarfélags, sem samtals heldur um eignir að virði 23 milljarðar króna. Sjóðstjórarnir leggja þó áherslu á að litið sé til mun fleiri fjárfestinga en eingöngu eigna Horns. Helstu eignir Horns eru eignarhlutur í Eyri Invest, tæplega helmingshlutur í Promens og eignarhlutur í Stoðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.