Gunnar Thoroddsen hefur verið ráðinn í stöðu bankastjóra Landsbanka Luxembourg S.A frá 1. júlí nk. Á sama tíma lýkur tímabundnum ráðningarsamningi núverandi bankastjóra Tryggva Tryggvasonar sem hverfa mun aftur til fyrri starfa á aþjóðasviði Landsbanka Íslands hf. í Reykjavík.

Gunnar Thoroddsen er 34ra ára lögfræðingur að mennt, með meistarapróf frá Duke University í Norður Karólínu í Bandaríkjunum og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Gunnar starfaði áður sem framkvæmdastjóri Hamla hf., dótturfélags Landsbanka Íslands hf. og sem forstöðumaður Sértækra útlána hjá höfuðstöðvum bankans. Á árunum 1995-1997 starfaði Gunnar m.a. sem framkvæmdastjóri Lögheimtunnar hf. og Intrum á Íslandi ehf. Eftir framhaldsnám í Bandaríkjunum 1999 starfaði hann sem lögfræðingur hjá OZ hf. og sem framkvæmdastjóri hjá Fjárstoð ehf. 2001-2003. Gunnar er kvæntur Auði Stefánsdóttur yfirflugfreyju hjá Icelandair og eiga þau þrjú börn.

Landsbanki Luxembourg S.A. er sjálfstætt starfandi banki í Luxembourg, en allt hlutafé hans er í eigu Landsbanka Íslands hf. Landsbanki Luxembourg S.A. annast víðtæka fjármálaþjónustu fyrir einstaklinga á sviði eignastýringar og fjárvörslu. Einnig er boðið upp á afmarkaða fyrirtækjaþjónustu. Hjá bankanum starfa nú 30 manns en tæpur helmingur starfsmanna eru Íslendingar. Rekstur bankans hefur gengið vel að undanförnu og mun í framtíðinni gegna veigamiklu hlutverki í sókn Landsbanka Íslands hf. á erlenda markaði.

Um leið og bankastjórn Landsbanka Íslands hf. og stjórn Landsbanka Luxembourg S.A. bjóða Gunnar velkominn til nýrra starfa eru fráfarandi bankastjóra, Tryggva Tryggvasyni, þökkuð vel unnin störf í þágu bankans. Hans bíða mikilvæg verkefni á alþjóðasviði Landsbankans, m.a. í tengslum við frekari útrás bankans á erlenda markaði.