Síðasta haust stóð MS fyrir söfnunarátaki fyrir Landspítala Íslands og við það tilefni var D-vítamínbætt léttmjólk færð í nýjar og tímabundnar umbúðir til að auka sýnileika átaksins og voru fernurnar svartar á litinn. Fimmtán krónur af andvirði hverrar fernu runnu beint til tækjakaupa fyrir spítalann og úr varð að 15 milljónir söfnuðust. Söfnunarféð var nýtt til kaupa á beinþéttnimæli fyrir Landspítalann en hann mælir beinheilsu 7.000 manns á ári hverju. Sá mælir sem fyrir var var kominn til ára sinna, að því er segir í tilkynningu.

Tækið var flutt til landsins nú í byrjun janúar og með í för voru tæknimenn sem sáu um uppsetningu á því. Þeir kenndu jafnframt starfsfólki innkirtladeildar Landspítalans á tækið. Þegar tækið var afhent sagði Páll Matthíasson forstjóri Landspítalans við að það væri alltaf ánægjulegt þegar samstarf spítalans og velunnara skilaði jafn ríkulegum ávexti sem þessum og tók það sérstaklega fram að það væri mikil ánægja meðal starfsfólks að geta loks bætt þessa víðtæku og mikilvægu þjónustu við landsmenn alla.